Bandaríski tæknirisinn Apple birti uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung seint í gærkvöldi og hefur afkoman aldrei verið betri á þessum hluta ársins í sögu fyrirtækisins. Hagnaður fyrirtækisins nam 10,8 milljörðum dala og jókst um 38% frá sama tímabili í fyrra. Fjárhæðin jafngildir 1.460 milljörðum íslenskra króna.

Þriðji ársfjórðungur er vanalega sá slakasti hjá Apple af þeirri ástæðu að margir viðskiptavinir fresta því að kaupa sér nýjan síma þar sem stutt er í kynningu á nýjum Iphone.  Fyrirtækið seldi þrátt fyrir það 47,5 milljónir Iphone-síma á fjórðungnum sem er 35% meiri sala en í fyrra. Þá seldust 4,8 milljónir Mac-tölva og jókst salan þar um 9%.

Apple Watch fengið frábærar viðtökur

Tim Cook, forstjóri Apple, sagði á kynningu um uppgjörið að þessar niðurstöður væru ótrúlegar. Þá sagði hann nýja vöru fyrirtækisins, Apple Watch, hafa fengið frábærar viðtökur, en vildi ekki opinbera tölur um sölu þess af samkeppnisástæðum.

Sé hins vegar litið á sölutölur „annarra vara“ í árshlutareikningnum, sem Apple Watch og fleiri vörur falla undir, sést að salan þar jókst um 952 milljónir dala á milli ársfjórðunga og nam nú 2,6 milljörðum dala.

Þrátt fyrir góða niðurstöðu lækkaði gengi hlutabréfa hins vegar um 6,7%, en sérfræðingar segja ástæðuna fyrir því vera spá Apple um tekjuafkomu fyrirtækisins á næsta ársfjórðungi sem er nokkuð undir væntingum.