Bandaríski tæknirisinn Apple hagnaðist um 13,6 milljarða Bandaríkjadali á fyrsta ársfjórðungi. Fjárhæðin jafngildir rúmlega 1.800 milljörðum íslenskra króna, og jókst hagnaður fyrirtækisins um 33% á milli ára. BBC News greinir frá.

Fyrirtækið seldi 61,1 milljón Iphone-síma á tímabilinu og námu sölutekjur í heild sinni 58 milljörðum dala. Jukust þær um 27% á milli ára, en þar munaði mestu um söluaukningu í Kína sem nam 71% á milli ára.

Apple á nú um 195 milljarða dali í handbæru fé, en við kynningu uppgjörsins tilkynnti fyrirtækið að það myndi kaupa eigin bréf í miklum mæli á næstunni. Endurkaupaáætlunin hljóðar nú upp á 200 milljarða dali í stað 130 milljarða áður.

Gengi hlutabréfa Apple hækkaði um 1% á mörkuðum eftir kynningu uppgjörsins.