Til að ýta undir þróun nýrra smáforrita verður gjald á seljendur hugbúnaðar og þjónustu í gegnum App Store Apple fyrirtækisins helmingað um áramótin fyrir flesta framleiðendur. Þannig fer gjaldið úr því að nema 30% af tekjum þeirra í 15%, að því gefnu að tekjurnar séu ekki yfir 1 milljón Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 136 milljónum íslenskra króna.

Tekjurnar af App Store sölukerfinu eru áætlaðar um 18,7 milljarðar Bandaríkjadala á næsta ári, sem standi undir þriðjungi allra tekna fyrirtækisins, þrátt fyrir lækkunina. Fyrr á árinu sagði félagið tekjurnar af App Store hafa numið 155 milljörðum dala frá því að hún fór í loftið 10. júlí 2008. Fleiri fyrirtæki eins og Google og önnur rukka sambærilega fyrir notkun sinna sölukerfa.

Apple segist með lækkuninni nú vilja koma til móts við smærri framleiðendur smáforrita, sem séu langstærsti hluti þeirra sem selji í gegnum söluforrit fyrirtækisins, svo þau geti frekar fjárfest í eigin starfsemi á tímum kórónuveirufaraldursins að því er fram kemur hjá Bloomberg fréttastofunni.

Í málaferlum vegna gjaldsins við framleiðendur Fortnite

En á sama tíma stendur Apple í málaferlum við Epic Games sem framleitt hefur tölvuleikinn Fortnite vegna gjaldanna í App Store og reglnanna í kringum þær. Sömuleiðis hafa eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum haft rukkanir fyrirtækisins til skoðunar sem og að Spotify kvartaði undan gjaldinu til samkeppnisyfirvalda í Evrópusambandinu.

Lækkun gjaldsins nú nær þó ekki yfir vinsæl öpp eins og Netflix og Spotify, sem komast hjá því að borga til Apple með því að leyfa áskrifendum ekki að skrá sig inn í þau í gegnum App Store.

Jafnframt nær breytingin ekki til þeirra 85% smáforrita sem fást ókeypis í gegnum sölukerfið. Í heildina eru í boði um 1,8 milljón öpp í gegnum App Store og eru um 28 milljón skráðir hugbúnaðarframleiðendur.