Tölvufyrirtækið Apple á í viðræðum um að kaupa fyrirtækið Beats Electronics, sem bandaríski rapparinn Dr. Dre stofnaði. Síðarnefnda fyrirtækið er meðal annars þekkt fyrir að framleiða heyrnartól, en opnaði jafnframt nýlega tónlistarveitu sem gerir fólki kleift að streyma tónlist.

Samkvæmt heimildum sem BBC vísar til er gert ráð fyrir að Apple gæti greitt allt upp undir 3,2 milljarða dala, eða 360 milljarða króna. Hugsanlega verði tilkynnt um samkomulag í næstu viku. Ef af kaupunum yrði þá yrðu þetta stærstu kaup í sögu Apple.