*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Erlent 3. febrúar 2020 16:40

Apple í baráttu um tengi við ESB

Evrópusambandið vill staðla hleðslutengi á farsíma en Apple segir það draga úr tækniframförum.

Ritstjórn
Lightning tengið sem Apple vill nota áfram er líklegt til að falla úr notkun innan ESB ef nýjar reglur verða samþykktar.
Aðsend mynd

Bandaríska stórfyrirtækið Apple stendur nú í baráttu við Evrópusambandið sem vill staðla hleðslutengi í farsímum og öðrum raftækjum sem seld eru innan þess.

Rök ESB fyrir reglunum eru að draga úr sóun meðan Apple bendir á að geti hamlað framþróun tækninýjunga. Evrópuþingið kaus með tillögu um að koma á samræmdu tengi í síðustu viku, með 582 atkvæðum gegn 40.

Þó reglunum sé ekki beint sérstaklega að Apple þá er fyrirtækið eitt af fáum sem ekki nota USB-C tengið á flestum nýjum símum sínum heldur eigin staðal, svokallað Lightning port, eða eldingartengi ef þýtt beint á hið ástkæra ylhýra.

Samkvæmt samþykktinni skorar þingið á framkvæmdastjórn ESB, sem er eitt um að geta lagt fram lagafrumvörp sem ná til alls sambandsins, að setja sterkari reglur um eina leið til að hlaða síma fyrir júlí næstkomandi.

Evrópusambandið hefur reynt að koma á slíkri löggjöf í meira en áratug að því er Business Insider segir frá. Er ætlunin að reyna að draga úr rusli sem komi til frá raftækjum sem ekki er hægt að endurnýta.

Rök sambandsins að notkun mismunandi hleðslutengja auki rusl sem komi til af slíkum raftækjum. Apple segir þvert á móti að slíka rreglur muni koma sínum hundruð milljóna viðskiptavina illa, að slíkar reglur hindri tækniframþróun og að slík regla muni búa til meira tækjarusl í sjálfu sér.

Evrópuþingið hafnar þvert á móti rökum um að reglurnar muni draga úr framþróun og tækninýjungar, en í samþykkt þess segir að framkvæmdastjórnin ætti „án þess að hindra tækninýjungar, tryggja að lagaumgjörðin fyrir samræmdan tengi yrði endurskoðuð reglulega“.