Tölvurisinn Apple stendur nú í deilum í Kína í kjölfar þess að dómstólar stöðvuðu sölu á iPad spjaldtölvunum í stórri verslunarkeðju þar í landi. Ástæða dómsúrskurðarins er sú að deilur standa um eignarrétt á vörumerki iPad. Frá þessu segir í netútgáfu breska dagblaðsins Financial Times.

Apple keypti vörumerkið í nokkrum löndum af fyrirtækinu Proview Taiwan og voru þar á meðal tvö vörumerki í Kína sem nú kemur í ljós að voru í eigu annars fyrirtækis, Proview Shenzhen. Bæði fyrirtækin eru systurfélög raftækjafyrirtækis í Hong Kong sem nú stendur höllum fæti.

Þessar deilur hafa haft neikvæð áhrif á sölu Apple á þessum mikilvæga markaði en dómstólar í Shanghai taka mál fyrirtækisins fyrir á morgun og er búist við að deilurnar verði leiddar til lykta á næstu vikum.

Úrskurður kínverskra dómstóla um sölubannið er síðasta útspil Proview í baráttu við Apple sem hefur farið stigvaxandi á síðastliðnum mánuðum. Kínversk tollyfirvöld eiga enn eftir að bregðast við tilraunum Proview til að fá inn- og útflutning á spjaldtölvunum stöðvaðan, en ætla má að sú aðgerð gæti valdið töluverðum vandræðum fyrir bandaríska tölvurisann enda öll framleiðsla á iPad í Kína.