Apple Inc. hefur lagt fram kæru á hendur Qualcomm Inc. í Peking. Apple sakar örgjörvaframleiðandann um vanefndir og því fer fyrirtækið fram á 145 milljónir dala í skaðabætur.

Qualcomm, sem framleiðir bæði fyrir Apple og Samsung, á einnig að hafa notfært sér hálfgerða einokunarstöðu sína, í viðskiptum við fyrirtækið.

Um 40% af heildarviðskiptum félagsins voru við Apple og Samsung og því mætti segja að Qualcomm sé afar háð því. Samt sem áður virðist Qualcomm hafa neytt Apple til þess að greiða of há verð fyrir örgjörvana.

Fréttaveita Reuters hefur fylgst grannt með örgjörvaframleiðandanum undanfarna misseri, en fyrirtækið stendur samkvæmt fréttaveitunni í deilum víðs vegar um heiminn. Öll málin snúa að einhverskonar misnotkun á einokunarstöðu í örgjörvabransanum.