Apple tæknifyrirtæki sakar einn helsta keppinaut sinn á farsímamarkaði, Samsung, um að gera eftirlíkingu af iPhone farsímanum. Apple hefur lagt fram kæru á hendur Samsung og telur að farsímalínan Samsung Galaxy sé ófrumleg eftirlíking af iPhone og iPad.

Meðal þess sem Apple gerir athugasemdir við er útlit á hönnun, til dæmis útlit myndtákna. Samsung neitar sök og segir að vinna og þróun hafi verið þeirra eigin. BBC greinir frá málinu í dag.

Samsung og Apple eru samkeppnisaðilar á markaði snjallsíma. Samsung símar keyra á Android, hugbúnaði Google, en Apple notast við eigin hugbúnað í farsíma sínum. Í frétt BBC kemur fram að fyrirtækin tvö eru ekki einungis keppinautar. Þannig eru kísilflögur og vinnsluminni Samsung notaðar í tölvum Apple.