Apple hefur keypt breska fjártæknisprotafyrirtækið Credit Kudos. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg . Samkvæmt heimildum fréttasíðunnar The Block er kaupverðið 150 milljónir dala, eða um 19 milljarðar króna.

Credit Kudos er forrit sem hjálpar fyrirtækjum að meta lánshæfi umsækjenda með greiningu á bankagögnum. Forritið býður jafnframt upp á þjónustu fyrir mögulega lántakendur við að leggja mat á lánshæfi þeirra. Credit Kudos veitir fyrirtækjum eins og TransUnion og Equifax samkeppni í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga.

Apple hefur á undanförnum árum aukið umsvif sín á sviði greiðslumiðlunar. Tæknirisinn byrjaði með hið svokallaða „Apple Card" í Bandaríkjunum, árið 2019. Fyrirtækið er auk þess að þróa vöru fyrir Apple Pay sem gerir fólki kleift að kaupa hluti og borga fyrir þá síðar með raðgreiðslum, að því er kemur fram í grein Bloomberg.

Talsmaður Apple sagði að tæknirisinn kaupi af og til smærri tæknifyrirtæki en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um kaupin á Credit Kudos.