Apple hefur eignast rúmlega hundrað fyrirtæki á síðustu sex árum en Tim Cook greindi frá þessu á aðalfundi fyrirtækisins í gær. Netrisinn hefur því að meðaltali keypt eitt fyrirtæki á þriggja til fjögurra vikna fresti á þessu sex ára tímabili. BBC segir frá.

Cook tjáði hluthöfum fyrirtækisins að yfirtökurnar væru aðallega til þess fallnar að ná í nýja tækni og hæfileikafólk (e. talent).

Stærsta yfirtaka Apple á síðasta áratug voru þriggja milljarða dala kaup þess á heyrnartólsframleiðandanum Beats Electronics, sem var stofnaður af rapparanum Dr. Dre. Árið 2018 keypti Apple einnig tæknifyrirtækið Shazam, sem gerir neytendum sínum kleyft að bera kennsl á tónlist, fyrir 400 milljónir dala.

Algengara er þó að Apple kaupi smærri tæknifyrirtæki og nýti tækni þeirra í sínar eigin vörur. Þar má meðal annars nefna ísraelska fyrirtækið PrimeSense en tækni þeirra er notuð í auðkenningarbúnaðinn FaceID.

Undanfarið ár hefur Apple eignast nokkur fyrirtæki sem sérhæfa sig í gervigreind eða sýndarveruleika. Árið 2019 eignaðist netrisinn einnig fyrirtækið Drive.ai, sem nýtir gervigreind til að þróa hugbúnað fyrir sjálfkeyrandi bíla.

Fyrsti fjórðungur fjárhagsársins 2021 hjá Apple var sá stærsti í sögu fyrirtækisins yfir tekjur sem námu 111,4 milljörðum dala. Apple er í dag stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna með markaðsvirði upp á 2.113 milljarða dollara