Apple hefur loks látið undan þrýstingi frá nokkrum stórum hluthöfum og vill nú breyta ákvæðum samþykkta félagsins um það hvernig stjórnarmenn skuli kosnir á aðalfundi. Hingað til hafa reglurnar verið þannig að hluthafar geta ekki greitt atkvæði gegn frambjóðanda í stjórn heldur aðeins setið hjá. Þetta þýðir að ef enginn er að bjóða sig fram gegn viðkomandi stjórnarmanni nægir honum eitt atkvæði til að fá sæti í stjórn.

Stærsti lífeyrissjóður Bandaríkjanna, Calpers, hefur lengi barist fyrir því að þessum reglum verði breytt þannig að stjórnarmenn þurfi að fá meirihluta atkvæða á aðalfundi til að ná sæti í stjórn. Apple hefur staðið í veginum fyrir þessum breytingum og borið fyrir sig lögum í Kalíforníuríki og sagt að þau geri slíkt fyrirkomulag erfitt í framkvæmd.

Apple hefur nú beðið Calpers að beita áhrifum sínum innan hluthafahópsins til að tryggja að nægilegur stuðningur verði við breytingarnar á næsta aðalfundi. Þá ætlar Apple að auka gagnsæi í stjórnun fyrirtækisins, ekki síst þegar kemur að launum helstu stjórnenda.