Hið nýja iOS9 snjallsímastýrikerfi Apple inniheldur nýtt kerfi sem er kallað „Wi-Fi Assist“, eða Wi-Fi hjálp. Hjálpin felur í sér að þegar síminn er tengdur í slælegt Wi-Fi samband bætir hann lélegt gagnastreymi upp með því að nota gagnamagn frá símþjónustunni sem notandinn skiptir við.

Nokkrir notendur nýja stýrikerfisins hafa kvartað yfir því að þessi Wi-Fi aðstoð sjúgi gagnamagn sitt upp einstaklega hratt. Það sem meira er, þegar þú kveikir fyrst á símanum eftir uppfærsluna er Wi-Fi hjálpin sjálfkrafa virk, og þú neyðist til að leita í kerfisstillingum símans til að slökkva á því.

Nú hefur Apple verið stefnt af Phillips-hjónunum frá Kaliforníufylki. Stefnan krefur fyrirtækið um einhverjar fimm milljónir bandaríkjadala, eða um 625 milljónir íslenskra króna.

Auðvelt er að slökkva á Wi-Fi hjálpinni, sértu meðvitaður um tilvist þess og óáhugasamur um að láta bæta upp Wi-Fi tenginguna þína. Þú ferð í 'Settings' forritið í iPhone símanum þínum, velur 'Mobile Data', skrunar á botninn og smellir 'Wi-Fi Assist' úr grænu í grátt.