Öllum Apple verslunum utan Kína – en þær opnuðu á fimmtudag – verður lokað í tvær vikur vegna kórónufaraldursins. Um er að ræða á fimmta hundrað verslanir. Tim Cook framkvæmdastjóri tilkynnti þetta í gærkvöldi.

Fyrr í vikunni hafði öllum 17 verslunum tæknirisans á Ítalíu verið lokað, en sem kunnugt er hefur faraldurinn leikið miðjarðarhafsríkið verst allra evrópulanda.

Cook sagði ákvörðunina tekna með hliðsjón af aðgerðum til að hefta útbreiðslu faraldursins í Kína. Einn lærdómurinn af reynslunni þar sé að áhrifaríkasta leiðin sé að draga úr samneyti fólks og lágmarka bein félagsleg samskipti.

Lokunin gildir sem fyrr segir til 27. mars, en Cook sagði þó enn óvíst hvenær mesta hættan verði yfirstaðin. Verslanirnar 42 í Kína áttu upphaflega aðeins að loka í átta daga, en sumar enduðu á því að vera lokaðar í sex vikur.