Leikjafyrirtækið Plain Vanilla er eitt þeirra fyrirtækja sem vert er að viðskiptavinir App Store-netverslunarinnar ættu að fylgjast með, samkvæmt meðmælum bandaríska tæknirisans Apple. Fyrirtækið tilkynnti nýverið að netverjar hafi varið um 10 milljörðum dala, rúmlega 1.180 milljörðum íslenskra króna, í App Store. Spurningaleikurinn QuizUp er á meðal þeirra leikja sem slógu þar í gegn í fyrra. Leikurinn er þar í flokki með Candy Crush Saga og Minecraft.

Í tilkynningu kemur fram að í desember einum eyddu viðskiptavinir App Store rúmum einum milljarði dala og keyptu þeir tæpar þrjár milljónir appa. Það er met. Í App Store má finna meira en milljón öpp í 24 flokkum. Eigendur iPhone, iPad og iPod touch tækja í 155 löndum hafa aðgang að versluninni, að því er segir í tilkynningunni.

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, var frumkvöðull ársins 2013 hjá Viðskiptablaðinu.