Tæknirisinn heimsþekkti sem hefur bækistöðvar sínar í Cupertino sagði að áætluð sala í lok desember yrði á bilinu 75,5 - 77,5 milljarðar bandaríkjadala, sem eru eitthvað í kringum 9.600 - 9.800 milljarðar íslenskra króna. Í heildina seldi fyrirtækið 48 milljón iPhone-síma, sem er met í símasölu fyrirtækisins.

Sala Apple á snjallsímanum vinsæla í fjórðungnum stóð fyrir einhverjum  32,2 milljörðum dala - 4100 milljarðar króna - sem gerir sölu á símanum stærri en Facebook og Microsoft til samans í þessum fjórðungi.

Tim Cook sagði að hann teldi þessa söluaukningu vera fyrst og fremst þeirri staðreynd að þakka að 30% þeirra sem keyptu sér iPhone voru að skipta frá símum með Android-stýrikerfi. Það er ekkert nýtt að fólk skipti yfir, en aldrei fyrr hefur svo hátt hlutfall notenda verið fyrrverandi Android-notendur.

Niðurstöður fjórðungsins sem leið voru á þann veg að tekjur fyrirtækisins jukust um 31% í 11,1 milljarð dala, sem gerir einhverja tvo dali á hlut. Sala jókst um 22% og endaði í 51,5 milljarði dala. Þá höfðu greinendur gert ráð fyrir sölu upp á 51 milljarð dala og tekjur upp á 1,88 dal á hlut. Því má segja að tæknitítaninn hafi sannarlega staðist væntingar.