Gengi hlutabréfa Apple nam 181,32 dölum við opnun markaða vestanhafs í dag og var markaðsvirði félagsins afar nærri því að verða það fyrsta í heimi til að brjóta þrjú þúsund milljarða dollara múrinn eða þrjár billjónir dala. Reuters fjallar um málið.

Til þess að setja fjárhæðina í samhengi fyrir lesendur má geta þess að þrjár billjónir dala eru yfir 390 billjónir, eða milljónir milljóna, íslenskra króna. Markaðsvirði Apple hefur hækkað úr tveimur billjónum dala í nærri þrjár billjónir á aðeins 16 mánuðum. Nái Apple að brjóta múrinn verður Microsoft Corp eitt í tveggja billjóna klúbbnum en Alphabet (það er móðurfélag Google), Amazon og Tesla hafa öll ná einnar billjónar markinu.

Til þess að brjóta múrinn þarf gengi félagsins að ná 182,86 dölum, rúmum dal hærra en opnunargengi dagsins nam. Það stefnir þó ekki í hátíðarhöld í höfuðstöðvum félagsins því gengi bréfanna hefur lækkað með deginum og er komið vel niður fyrir 180 dalina þegar þetta er skrifað.

Gengi bréfa Apple hafa verið á uppleið á árinu en Reuters segir gott gengi bréfanna endurspegla trú fjárfesta á áframhaldandi ríkri eftirspurn neytenda eftir iPhone símum, MacBook tölvum og þjónustum á borð við Apple TV og Apple Music.