Evrópusambandið birtir í dag skýrslu um skattalega samninga Apple við írsk stjórnvöld sem ná tvo áratugi aftur í tímann. Er fyrirtækið sakað um að hafa fengið ólöglega styrki frá írskum stjórnvöldum í gegnum skattaívilnanir. Financial Times greinir frá málinu.

Rannsókn Evrópusambandsins á að hafa leitt í ljós að Apple hefur greitt innan við 2% skatta af starfsemi sinni í landinu. Er því haldið fram að fyrirtækið hafi samið sérstaklega um skattgreiðslur sínar við írsk stjórnvöld, sem önnur fyrirtæki hafi allajafna ekki kost á að gera.

Apple, sem hefur verið með starfsemi í Írlandi frá árinu 1980, heldur því hins vegar fram að samningar þess við írsk stjórnvöld brjóti ekki í bága við neinar lagareglur. „Það hefur aldrei verið gerður neinn sérstakur samningur og við höfum aldrei þegið neitt sem gæti flokkast sem ríkisstyrkur,“ segir Luca Maestri, fjármálastjóri Apple, í samtali við Financial Times.

Verði Apple sektað vegna málsins er talið að sektin gæti numið milljörðum evra og orðið þannig hæsta sekt sögunnar í málum sem þessum.