Áætlað var að starfsfólk Apple sneri aftur til vinnu á skrifstofum fyrirtækisins í september en því hefur nú verið frestað þangað til í fyrsta lagi í október. Bloomberg greinir frá.

Ráðstafanirnar eru gerðar í kjölfar aukins fjölda COVID-19 smita víðs vegar um heiminn. Apple er meðal fyrstu tæknirisa heimsins sem tekið hafa ákvörðun um að seinka því að fara aftur í eðlilegt horf vegna þrálátra smita af Delta-afbrigðinu.

Starfsmenn fyrirtækisins munu fá að minnsta kosti mánaðar fyrirvara áður en þeim verður gert að snúa aftur á vinnustaði sína. Í júní sagði framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Tim Cook, að áætluð endurkoma starfsfólks yrði í september og að fólk myndi þurfa að vinna á skrifstofum fyrirtækisins minnst þrjá daga í viku.

Ástæðan sem var gefin fyrir endurkomu í september var fækkandi smit og góður gangur á bólusetningum. Starfsfólk Apple hafði gagnrýnt þá ákvörðun og fannst það vera allt of snemmt. Þrátt fyrir að um helmingur Bandaríkjamanna sé bólusettur deyja þó fleiri úr COVID-19 en af völdum skotvopna, bílslysa og inflúensu til samans þar.