Önnur kynslóð af iPad spjaldtölvu Apple seldist í nærri milljón eintökum um helgina en sala hófst síðastliðinn föstudag. Þetta er mat greiningaraðila í Bandaríkjunum og CNBC fréttastofa vísar til.

Til samanburðar tók það 28 daga að selja milljón eintök af fyrstu kynslóð tölvunnar. Hægt var að kaupa nýju gerðina í verslunum Apple, Wal-Mart, Best-Buy og símfyrirtækjanna AT&T og Verizon Wireless. Í fréttinni segir að erfitt hafi verið að komast yfir eintak um helgina. Í flestum verslunum seldist græjan upp á laugardegi. Í einhverjum verslunum Best-Buy seldist upplagið upp á innan við tíu mínútum.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að hér á landi verður tölvan fáanleg föstudaginn 25. mars.