Bandaríski tæknirisinn Apple hefur óskað eftir því við Hon Hai Precision Industry, sem setur saman iPhone símana, að undirbúa fyrstu sendingu af ódýrari og dýrari útgáfu af símanum til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Fram kemur að birgjar Apple í Asíu hafi hafið fjöldaframleiðslu á íhlutum í júní fyrir bæði venjulegan iPhone, með málmhulstur, og ódýari útgáfu (væntanlega eingöngu úr plasti).

Samkvæmt blaðinu verða nýju símarnir jafnvel kynntir 10 september. Ekki kemur fram í fréttinni hvert verðið á nýju símunum verður. Blaðafulltrúi Apple vildi ekki tjá sig um frétt blaðsins.

Suður-kóreski símaframleiðandinn Samsung seldi rúmlega tvisvar sinnum fleiri síma en Apple á öðrum ársfjórðungi. Markaðshlutdeild Samsumg er um 32% en aðeins um 14% hjá Apple.

Breiðara vöruúrval hjá Apple er án efa hugsað til að bregðast við harðri samkeppni frá Samsung.