Á síðastliðinn þriðjudag gaf verðmætasta fyrirtæki heims út uppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Eins Viðskipablaðið greindi frá tók markaðurinn vel í uppgjörið og hækkaði gengi hlutabréfa Apple um tæp 6% í kjölfarið.

Það sem vekur þó mikla athygli fyrir utan þá staðreynd að fyrirtækið skilaði 8,7 milljarða dollara hagnaði á tímabilinu er að fyrirtækið situr nú á 261,5 milljörðum dollara af lausafé. Nemur upphæðin 27.580 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Samkvæmt uppgjöri félagsins samanstendur upphæðin af 18,5 milljörðum af handbæru fé, 58,2 milljörðum af skammtíma markaðsverðbréfum og 184,7 milljörðum af langtíma markaðsverðbréfum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær á Apple hærri upphæð af bandarískum ríkisskuldabréfum en mörg ríkis heimsins og ef fyrirtækið væri land, væri það 23. stærsti eigandi af skuldabréfum landsins.

Til að setja upphæðina í samhengi er vert að líta á hvað Apple gæti gert við 261,5 milljarðana:

  • Keypt smásölurisan Wal-Mart eins og hann leggur sig en markaðsverðmæti fyrirtækisins nemur um 243 milljörðum dollara.
  • Keypt öll liðin í deildum Bandaríkjanna í amerískum fótbolta, hafnarbolta, körfubolta og íshokkí.
  • Ef peningunum yrði dreift jafnt til allra jarðarbúa, þá myndi hver og einn fá um 35 dollara í sinn hlut.
  • Ef lausafé Apple væri mælistika á verga landsframleiðslu væri upphæðin 42. stærsta hagkerfi heims á undan löndum á borð við Finnland, Grikkland, Portúgal og Nýja-Sjáland.
  • Gætu keypt Marel, Össur og Icelandair saman, 50 sinnum.
  • Rekið íslenska ríkið í 27 og hálft ár miðað við heildarútgjöld á árinu 2016.
  • Rekið íslenska heilbrigðiskerfið í 161 ár miðað við heildarútgjöld þess á árinu 2016.
  • Síðast en ekki síst væri hægt að byggja 579 spítala við Hringbraut miðað við skýrslu KPMG.