Hagnaður tæknirisans Apple nam 11,6 milljörðum dala, andvirði um 1.460 milljarða króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Er það tæplega tvöfaldur sá hagnaður sem fyrirtækið skilaði á sama tímabili í fyrra, en þó aðeins minni en á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Tekjur á fyrsta fjórðungi þessa árs námu 39,2 milljörðum dala, en alls seldust 35,1 milljón iPhone snjallsíma og 11,8 milljónir iPad spjaldtölva á tímabilinu. Tekjur á sama tímabili í fyrra námu tæpum 27 milljörðum dala.

Gengi bréfa Apple hefur lækkað umtalsvert undanfarið og nam lækkunin í dag 2,15%. Gengi bréfanna var við lokun markaða um 559 dalir á hlut, en hæst fór það vel yfir 600 dali fyrr á árinu.

Lækkunin er ekki sögð stafa af því að fjárfestar hafi áhyggjur af slakri afkomu fyrirtækisins, heldur því að mörgum þyki gengið mjög hátt og að ekki þurfi mikið til svo að það lækki og þá geta menn tapað fé.