Yfir fimm milljónir iPhone 5 snjallsíma seldust í Kína á fyrstu sjö dögunum sem símarnir voru til sölu. Aldrei áður hafa eins margir símar selst á jafn skömmum tíma í Kína.

Financial Times segir að fréttir af mikilli sölu gætu lyft verði hlutabréfa í Apple hærra eftir lækkanir að undanförnu. Á síðustu þremur mánuðum hefur hlutabréfaverð í Apple lækkað um rúmlega 25%.

Tim Cook, forstjóri Apple, greindi frá árangrinum í Kína í dag. Símarnir eru seldir í Apple verslunum auk þess sem símfyrirtækin China Unicom og China Telecom selja iPhone snjallsíma. Stærsta símfyrirtæki Kína, China Mobile, styður hins vegar ekki iPhone. Búist er við að fyrirtækin tvö, China Mobile og Apple, nái samkomulagi á næsta ári en markaðshlutdeild kínverska símfélagsins er um 65%.