Dómarar Evrópusambandsins (ESB) hafa ógilt fyrirskipun Framkvæmdaráðs ESB frá árinu 2016 um að Apple þyrfti að greiða 14,3 milljarða evra, eða um 2.296 milljarðar íslenskra króna, í afturkvæmar skattagreiðslur. Úrskurðurinn er talinn vera mikið áfall fyrir baráttu Margrethe Vestager, forstjóra samkeppniseftirlits ESB, gegn skattahagræðingu tæknirisanna. Financial Times greinir frá .

Næstæðsti dómstóll ESB sagði fyrr í dag að stjórnvöld í Brussel hafi ekki tekist að sýna fram á nauðsynlegar lagareglur um að Apple hafi fengið ólöglega efnahagslega yfirburði í Írlandi vegna skattamála.

Apple greiddi 13,1 milljarð evra afturkvæma skattgreiðslu og 1,2 milljarða evra vexti eftir úrskurð Vestager frá árinu 2016 sem kvað á um að Írland hafi gefið fyrirtækinu „öðlinga“ (e. sweetheart) samning í meira en 10 ár.

Evrópusambandið hefur nú tvo mánuði og tíu daga til að áfrýja ákvörðuninni. Talið er líklegt að Framkvæmdaráðið muni áfrýja sem myndi leiða til þess að málinu yrði skotið til Dómstóls Evrópusambandsins, hæstaréttar ESB.

Sérfræðingar í ríkisaðstoð telja að úrskurðurinn muni hafa tafarlausar afleiðingar fyrir ESB. Dimitrios Kyriaziz, deildarforseti lögfræðisviðs New College of the Humanities, sagði að ákvörðunin muni verða líkt og „tundurskeyti“ fyrir tilraunir Vestager að tækla skattahagræðingu tæknirisa og skaðlega skattasamkeppni Evrópuríkja.

Málið var talið mjög viðkvæmt fyrir Írland sem er alheimsmiðstöð fyrir hundruð fjölþjóðlegra fyrirtækja sem sækjast þangað vegna 12,5% fyrirtækjaskatta og aðgang að Evrusvæðinu. Borgaryfirvöld í Dublin fögnuðu ákvörðuninni og sögðu að Írland hafi alltaf verið skýrt í sinni afstöðu um að Apple hafi ekki fengið neina sérstaka meðhöndlun.