Bandaríska tæknifyrirtækið Apple sló met um helgina þegar nýjustu iPhone-símar Apple komu í verslanir vestanhafs. Níu milljónir síma seldust í Bandaríkjunum og hafa aldrei jafn margir rokið úr hillum verslana þegar nýr sími hefur komið á markað. Gengi hlutabréfa Apple rauk upp um rúm 4,4% á bandarískum hlutabréfamarkaði og er búist við því að afkoma Apple stórbatni við þetta, verði jafnvel í efri kantinum á seinni hluta ársins, samkvæmt umfjöllun bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal .

Blaðið segir svo mikla eftirspurn eftir dýrari símanum iPhone 5s í Kína og Hong Kong að Apple hafi þrýst á framleiðendur að bretta upp ermarnar og fjölga símunum sem renna út af færibandinu á markaðinn.

Í afkomuspá Apple í júlí var gert ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins muni nema á bilinu 34 til 37 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi. Blaðið segir að miðað við hversu vel nýju iPhone-símarnir seljist verði tekjurnar allt að 36,1 milljarður dala.