Gengi hlutabréfa bandaríska tæknifyrirtækisins Apple tók sveig upp á við skömmu eftir að hlutabréfamarkaður opnaði vestanhafs. Það hefur nú hækkað jafnt og þétt og nam hún um fimmleytið að íslenskum tíma í rúmum 2,5% á hlut. Talsvert meira þarf þó til að ná aftur 6% gengisfalli hlutabréfanna í gær. Við það gufuðu upp 37 milljarðar dala af markaðsverðmæti Apple.

Talið er að gengishrunið í gær hafi skýrst af vangaveltum þess efnis að aukin hlutdeild spjaldtölva sem keyra á Android-stýrikerfinu frá Google sé tekin að narta í afkomu Apple af sölu iPad-tölva. Fleira er þó talið hafa átt hlut að máli, s.s. óvissa um ríkisfjármál í Bandaríkjunum.

Það sem helst þrýstir genginu upp á við nú eru orð Tim Cook, forstjóra Apple, þess efnis að fyrirtækið ætli að opna fjárhirslu sína lítillega og nýta í kringum 100 milljón dali til að reisa verksmiðju í Bandaríkjunum sem taki við hluta af framleiðslu á fartölvum Apple í Kína. Cook sagði framleiðsluna fara í gang strax á næsta ári. Segja má, að með þessu sé fyrirtækið að flytja störf aftur heim.

Gengi hlutabréfa Apple stendur nú í um 552,5 dölum á hlut. Það er 21% lægra en þegar bréfin stóðu í sínu hæsta gildi seint í september. Þá kostaði eitt bréf í Apple 705,07 dali á hlut, jafnvirði 88.400 íslenskra króna.

Þeir sem áhuga hafa geta fylgst hér með gengisþróun hlutabréfa Apple .