Tölvurisinn Apple er nú sakaður um að hafa stolið hönnun á klukku í nýja iOS6 stýrikerfi sínu. Klukkan sem um ræðir prýðir Svissneskar lestarstöðvar og er hönnunin frá árinu 1944. Hönnun klukkunnar er í eigu lestarfyrirtækisins SBB sem aftur er í eigu svissneskra yfirvalda.

Forsvarsmenn SBB eiga nú í viðræðum við Apple um málið en ekki er að heyra að reiðin sé mikil vegna málsins. Á viðskiptavef Bloomberg er haft eftir talsmanni SBB að félagið sé stolt af því Apple vilji nota hönnuna og vonist til að ná samkomulagi við Apple um málið.

Talsmaður Apple vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann sagði klukkuna aðeins notaða í iPad en ekki í iPhone.