Undir lok síðustu viku var Apple metið á um 830 milljarða bandaríkjadala, en undanfarinn áratug hefur heildarverðmæti fyrirsækisins aukist nánast sleitulaust allt frá því í janúar 2009, þegar verðmæti þess var aðeins 69 milljarðar dollara.

The Guardian fjallar um fyrirtækið og þær væntingar sem neytendur og fjárfestar hafa til kynningar þess á nýja iPhone á þriðjudaginn. Auk þess að bjóða að öllum líkindum fram hefðbundnar uppfærslur á snjallsímanum með iPhone 8 og 8 Plus, sem þó gætu fengið nafnið iPhone 7s og 7s Plus, er orðrómur á kreiki um nýja og betri afmælisútgáfu, iPhone X sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun. Sú útgáfa af snjallsímanum verður að öllum líkindum í dýrari kantinum.

Blaðamaður Guardian áætlar að hann muni kosta um 900 pund, rúmlega 126 þúsund krónur. Til samanburðar kostar iPhone 7 Plus 709 pund í Bretlandi, um 99 þúsund krónur en kostar um 120 þúsund krónur hér á landi.

Þá er einnig horft til þess hvað Apple hafi fram að færa á þriðjudaginn á sviði snjallúra á borð við Apple Watch, sem náði að margra mati ekki nægilegri fótfestu þegar það var kynnt til sögunnar, sem og til þróunar á Apple TV og almennrar hugbúnaðarþróunar hjá fyrirtækinu. Gangi allt eftir er mögulegt að fyrirtækið verði fyrsta fyrirtækið sem metið er á billjón dollara.