Apple hefur stefnt ísraelska fyrirtækinu NSO sem er þekktast fyrir njósnahugbúnaðinn Pegasus. Í stefnunni fullyrðir Apple að NSO hafi misnotað vörur og þjónustu fyrirtækisins og farið gegn persónuvernd viðskiptavina Apple, líkt og kemur fram í grein Wall Street Journal. Jafnframt segir í stefnunni að netþjónar Apple hefðu orðið fyrir verulegum röskunum af völdum njósnahugbúnaðar ísraelska hugbúnaðarfyrirtækisins.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem NSO er stefnt vegna Pegasus hugbúnaðarins. Facebook stefndi fyrirtækinu árið 2019 og fullyrti að ráðist hefði verið á notendur WhatsApp með hjálp Pegasus. Will Cathcart, framkvæmdastjóri WhatsApp, lýsti ánægju sinni yfir stefnu Apple á hendur NSO í tísti í gærkvöldi.

Samkvæmt sérfræðingum um öryggismál hefur NSO þróað tækni sem gerir þeim kleift að setja Pegasus upp í Apple farsímum án þess að notandinn hafi samþykkt eða veitt leyfi fyrir uppsetningu hugbúnaðarins. Jafnframt er því haldið fram að Pegasus beinlínis breyti iPhone símum í hljóðlátan njósnabúnað sem veitir notendum Pegasus aðgengi að skilaboðum og öðrum gögnum í símanum, en einnig aðgengi að hljóðnema og myndavél notandans án hans vitundar.

NSO hefur ekki svarað stefnunni en gaf út yfirlýsingu þess efnis að hugbúnaður fyrirtækisins hafi stuðlað að því að þúsundum mannslífa hefði verið bjargað. Hugbúnaðurinn hefði þannig nýst í baráttunni gegn hryðjuverkum og öðrum glæpum.