Bandaríski tæknirisinn Apple þarf að greiða viðskiptavinum sínum rétt rúmlega 30 milljónir dala, jafnvirði rúmra 3,4 milljarða íslenskra króna, í bætur vegna notkunar barna á iPhone-símum og iPad-spjaldtölvum. Bótagreiðslan er liður í sátt Apple við bandarísk yfirvöld.

Málið snýst í grófum dráttum um það að tiltölulega einfalt mál er að kaupa uppfærslur á leikjum og smáfforitum í tólum og tækjum Apple og munu tugþúsundir barna, sem hafa leikið sér með tölvur og síma foreldra sinna, einmitt gert það í barnaskap sínum.

Breska dagblaðið Financial Times segir krakkana hafa varið sem nemur hundruð jafnvel þúsundum dala í kaup á forritum og uppfærslum þeirra. Blaðið nefnir leiki á borð við Tap Pet Hotel, Dragon Story og Tiny Zoo Friends.

Apple ætlar jafnframt að breyta uppfærslumöguleikum sínum, að sögn blaðsins.

Stutt er síðan Apple greindi frá því að viðskiptavinir fyrirtækisins hafi keypt forriti og annað rafrænt efni í netversluninni App Store fyrir 10 milljarða dala í fyrra.