*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 2. september 2020 13:11

Apple verðmætari en FTSE 100

Eftir að hafa farið yfir 2.300 milljarða dala markið er tæknifyrirtækið orðið verðmætara en öll félög í bresku vísitölunni.

Ritstjórn
Tim Cook hefur starfað fyrir Apple frá árinu 1998, en tók við sem forstjóri af Steve Jobs árið 2011.
epa

Eftir að gengi bréfa bandaríska tæknifyrirtækisins Apple hækkaði um 4% í gær fór heildarverðmæti félagsins í 2,3 billjón, eða 2.300 milljarða, Bandaríkjadala. Það samsvarar 315.721 milljörðum, það er 315,7 billjónum, íslenskra króna og er verðmæti félagsins þar með komið fram úr heildarverðmæti allra fyrirtækja í bresku FTSE 100 vísitölunni.

Viðskiptablaðið sagði frá fyrir tveimur vikum þegar Apple fór þá fyrst bandarískra félaga upp fyrir 2 billjóna dala markið, en verðmæti bréfa félagsins hefur meira en tvöfaldast frá því í marsmánuði á þessu ári þegar óðagot varð á heimsmörkuðum vegna kórónuveirufaraldursins.

Heildarverðmæti félaganna í vísitölunni samsvarar 1,5 billjónum breskra punda en Apple er verðmetið á 1,7 billjónir punda. Í FTSE 100 vísitölunni er hins vegar fjöldi olíufélaga og banka sem hafa farið illa út úr heimsfaraldrinum og annarri þróun á mörkuðum síðustu ára.

„FTSE 100 vísitalan er risaeðla full af hægfara hlutabréfum úr gamla heiminum með takmarkaða möguleika til vaxtar,“ er haft eftir Neil Wilson markaðsgreinanda hjá Markets.com í BBC.

„Meðan Bandaríski markaðurinn eru með Zoom erum við með BT og Vodafone. Bandaríkin geta hampað sér fyrir að vera með Netflix og Amazon - en FTSE vísitalan getur rétt svo nefnt ITV og Sainsbury´s.“

Wilson segir vísitöluna þó góðan mælikvarða á heimshagkerfið sem sé komið að fótum fram en í vísitöluninni er Ocado eina tæknifyrirtækið.

„Það eru eiginlega engin tæknifyrirtæki þar sem nefna má, þar sem aðalpeningarnir hafa orðið til í ár“

Tæknifyrirtæki eins og Apple, Facebook, Amazon sem og bílaframleiðandinn Tesla hafa hækkað mikið í verði síðustu mánuði í kjölfar þess að fleiri hafa nýtt sér þjónustu þeirra í samkomubönnum og sóttkvíum víða um heim.

Líkt og Tesla framkvæmdi á mánuaginn skiptust bréf Apple í fjóra hluta á föstudaginn 28. ágúst, en með slíkum skiptum er ætlunin að gera auðveldara fyrir fjárfesta að kaupa í félögunum þar sem hvert bréf er þá ódýrara.

FTSE 100 vísitalan stendur nú í 5.932,55 stigum, og hefur hún þar með lækkað um 22,7% frá hæsta punkti sínum í ár, í janúar. Á sama tíma heldur bandaríska Nasdaq Composite vísitalan, sem inniheldur mörg tæknifyrirtæki, áfram að ná nýjum hæðum, og hefur hún nærri því tvöfaldast í verðmæti í kjölfar óðagotsins á hlutabréfamörkuðum í mars.