Google er ekki lengur verðmætasta vörumerki heims. Eftir fjögur ár á toppi BrandZ-listans hefur fyrirtækið þurft að víkja fyrir Apple. Verðmæti Apple-vörumerkisins er meira en 153 milljarðar dala samkvæmt nýjum lista sem birtur var í morgun og allir helstu vefmiðlar heims vitna í. Listinn er tekinn saman af Millward Brown, dótturfélagi breska auglýsingarisans WPP.

Eins og nærri má geta eru það iPad og iPhone sem valda þessari breytingu á listanum en bæði neytendur og fyrirtæki hafa tekið þessum vörum mjög vel. Fyrir vikið hefur verðmæti Apple-vörumerkisins nær tífaldast frá árinu 2006, aukist um 137 milljarða dala og að sama skapi hefur markaðsvirði fyrirtækisins nær fimmfaldast á sama tíma. Markaðsvirði Apple er nú rúmir 319 milljarðar dala en markaðsvirði Google er um 172 milljarðar.

Upplýsingatæknifyrirtæki eru í sex af tíu efstu sætum listans. Auk Apple og Google eru IBM, Microsoft, AT&T og China Mobile á meðal efstu fyrirtækja.