Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Apple IMC á Íslandi, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að ný og stórglæsileg Apple-verslun verði opnuð í glerhúsinu Laugavegi 182 (Kauphöllinni) fyrir áramót. Þar verður ný miðstöð Apple á Íslandi með skrifstofum og þjónustu fyrirtækisins.

Skammt er stórra högga á milli hjá íslenskum rekstraraðilum Apple sem hafa einkaleyfi á að reka verslanir undir þessu nafni á Norðurlöndunum öllum. Í sumar var opnuð ný Apple búð í Kaupmannahöfn og á fimmtudag var ný Apple verslun opnuð í Stokkhólmi í Svíþjóð. Þetta er fjórða Apple verslunin í eigu Íslendinga sem er opnuð á hinum Norðurlöndum og er ætlunin að opna fjölda sérhæfðra verslana á næstu árum. Segir Bjarni að ætlunin sé að opna þrjár verslanir í Stokkhólmi og verið sé að leita að plássi víðar, eins og í Helsinki í Finnlandi og á fleiri stöðum í Danmörku.

Örtröð myndaðist við opnun verslunarinnar í Stokkhólmi. Að sögn Bjarna fór þetta jafnvel enn betur af stað en þegar opnað var í Kaupmannahöfn fyrr á árinu. Um eða yfir 200 manns biðu alla nóttina og klukkan tíu um morguninn biðu vel á fimmta hundrað manns fyrir utan verslunina. Hamagangurinn var þvílíkur að menn höfðu á orði að aldrei hefði annað eins sést í borginni. Höfðu innfæddir reyndar spáð því að ekki tækist að fá Svía til að standa í biðröð, en Bjarni og félagar hafa greinilega afsannað það. Upp úr hádegi á opnunardaginn höfðu yfir 1000 viðskiptavinir verið afgreiddir og hefur þar með fyrra met verið slegið.

Hér á landi hefur verið ein verslun í gangi síðan nýtt Apple umboð tók til starfa á Íslandi árið 2003. Var þá opnuð sérverslun fyrir Apple vörur að Brautarholti 10. Eins og fyrr segir verður breyting þar á fyrir áramótin þegar opnuð verður ný verslun í Kauphallarhúsinu, enda löngu búið að sprengja húnsnæðið utan af starfseminni.