Applicon, dótturfélag Nýherja, lauk um páskana innleiðingu á öllum viðskiptakerfum sænska bankans Landshypotek. Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að þetta sé afar umfangsmikið verkefni sem nái til fjölda starfsmanna Applicon í Svíþjóð, Danmörku og á Íslandi. Innleiðingin stóð yfir í eitt og hálft ár. Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Hjá Applicon starfa um 140 manns á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð. Applicon er í eigu Nýherja hf.

Bankinn, sem hefur lagt áherslu á þjónustu til bænda og landeigenda, rekur 19 útibú viðsvegar um Svíþjóð. Með þessari innleiðingu hefur hann fengið leyfi til almennrar bankaþjónustu þar í landi. Landshypotek tók í notkun útlánakerfi, innlánakerfi, tryggingakerfi og viðskiptamannakerfi frá SAP.

Auk þess hefur Landshypotek tekið í notkun ýmsar sérlausnir frá Applicon sem hafa verið í þróun í rúmlega tíu ár fyrir norrænar fjármálastofnanir; greiðslumiðlun, tengingu við áhættustýringu og netbankalausn. Haft var samstarf við Emric, sem sérhæfir í greiðslugetu og lánaumsóknarferlum, um þróun og uppsetningu á lánaumsóknakerfi sem tengist SAP.