Hugbúnaðarfyrirtækið Applicon, sem er í eigu Nýherja, bar sigur úr býtum í alþjóðlegri nýsköpunarkeppni SAP í Þýskalandi þar sem 40 fyrirtæki víðs vegar að úr heiminum tóku þátt. Fram kemur í tilkynningu að verðlaunaverkefnið, sem var lagt fyrir dómnefnd SAP, byggist á nýrri tegund af gagnagrunni fyrir bankakerfi SAP. Verðlaunaféð nam 80 þúsund evrum, jafnvirði rúmra 12,3 milljóna króna. Auk peningaverðlauna hlýtur Applicon aðstoð frá sérfræðingum SAP við að ljúka við gerð verkefnisins.

„Gagnagrunnurinn geymir öll gögn í minni og getur náð 10 þúsund sinnum meiri hraða auk þess að einfalda kerfishögun og lækka kostnað,“ segir Ingimar G. Bjarnason, framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi. Hann bendir á að lausnin hafi þróast út frá SAP HANA-gagnagrunni, sem spáð er að verði allsráðandi á markaði innan skamms tíma. Þá var launin tengd við skýrslulausn frá SAP Business Objects.

Haft er eftir Ingimar í tilkynningu að verðlaunaféð muni nýtast við að ljúka við þróun á gagnagrunninum. Ekki sé síður mikilvægt að njóta aðstoðar sérfræðinga SAP sem muni víkka þekkingu og reynslu Applicon.

Hjá Applicon hér á landi vinna um 50 manns. Eins og fram kom í síðustu viku er rekstur Applicon í Danmörku í söluferli.