Sprotafyrirtækið Appollo X hefur samið við Frumtak 2 um 50 milljóna króna fjármögnun. Fjárfesting Frumtaks 2 snýr aðallega að stuðningi við áframhaldandi þróun forritsins Watchbox frá Appollo X.

Til þessa hefur Kjartan Örn Ólafsson, fjárfestir, fjármagnað félagið að mestu, en henn mun áfram gegna stjórnarformennsku félagsins.

„Við erum að flytja fyrirtækið til Bandaríkjanna í byrjun janúar næsta árs til þess að gæta að áframhaldandi vexti og fara inn á nýja markaði,” segir Davíð Örn Símonarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í viðtali við Viðskiptablaðið

Snjallsímaforritið Watchbox er undir þróun Appollo X teymisins, en það auðveldar fólki að deila myndum og myndböndum innan fyrirfram skilgreindra hópa.

Watchbox er á sama markaði og Snapchat og býður upp á þá þjónustu að geta búið til sérstaka hópa eða rásir í kringum myndbönd. Þá getur hver og einn sem er meðlimur að tiltekinni rás séð inn í hana, meðan hún er lokuð almenningi. Þá er á sama hátt hægt að opna opinberar rásir.

Að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins verður rétt rúmlega 3.000 milljörðum myndbanda deilt gegnum snjallsíma á árinu 2015 sem séu fleiri myndir en teknar hafa verið á filmu frá uppfinningu fyrstu myndavélarinnar. Áður hefur Appollo X unnið að forritunum Blendin og leiksins Dusty Dots.