„Hvað varðar ferðaþjónustuna verður ársins 2015 ekki síst minnst fyrir það þegar atvinnulífið og stjórnvöld tóku höndum saman um að ráðast í mikilvæg verkefni sem snúa að uppbyggingu greinarinnar," segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) í pistli á vefsíðu SAF. Vísar hann til þess þegar SAF og iðnaðar- og viðskiptaráðherra tóku höndum saman um mótun heildstæðrar stefnu fyrir ferðaþjónustuna.

„Það er síðan okkar að tryggja að árið 2016 verði framkvæmdaár þegar við látum hendur standa fram úr ermum."

Grímur segir að síðasta ár hafi verið ferðaþjónustunni gjöfult. Bendir hann á að samkvæmt spám hafi um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna komið til landsins og gjaldeyristekjur af greininni numið 368 milljörðum króna.

„Gangi þessar spár eftir má ætla að gjaldeyristekjurnar hafi þannig aukist um tæplega 100 milljarða á aðeins tveimur árum, " segir Grímur. „Er þetta ótvíræður vitnisburður um hinn gríðarlega vöxt sem ferðaþjónustan hefur notið á undanförnum árum. Þessi vöxtur hefur haft í för með sér margvíslegan ávinning en um leið áskoranir fyrir íslenskt samfélag."