*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 11. október 2020 14:05

Ár í að 5G nái fótfestu

Forstjóri Vodafone segir að 4G hafi verið bylting fyrir almenna neytendur en 5G verður bylting fyrir fyrirtæki og heimili.

Trausti Hafliðason
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone.
Eva Björk Ægisdóttir

Byltingin í tengslum við 5G fjarskiptakerfið er að hefjast hérlendis. Eru fjarskiptafyrirtæki þegar búin að koma upp nokkrum 5G-sendum, þannig er Vodafone með sendi við höfuðstöðvar sínar á Suðurlandsbraut og Nova hefur sett upp sendi í Reykjavík, sem og í Sandgerði, Vestmannaeyjum og á Hellu. Síminn er að hefja sína uppbyggingu. Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, telur að ekki sé nema eitt ár í að 5G nái almennilegri fótfestu hér á landi.

5G er, eins og nafnið gefur til kynna, fimmta kynslóð farsímakerfa. Munurinn á kerfunum liggur meðal annars í hraða gagnatenginga. Með 4G er hægt að hlaða niður 150 til 200 mb að meðaltali á sekúndu en með 5G er hægt sækja tífalt meira magn. Með 5G verður hægt að tengja fleiri tæki en einungis farsíma, t.d. ýmis heimilistæki, sem og tölvustýrðar vélar, bíla o.s.frv.

Öðruvísi bylting

Heiðar segir að 4G hafi verið bylting fyrir almenna neytendur því með 4G hafi þeir í raun fengið tölvuna í lófann. 5G verði aftur á móti bylting fyrir fyrirtæki og heimili.

„Þegar þú setur upp 5G netbeini á heimilinu þá stingurðu honum bara í samband við rafmagn og færð sama hraða eða meiri en fæst í dag með ljósleiðaratengingu,“ segir hann. „Við einn svona netbeini er síðan hægt að tengja allt upp í 80 tæki, ekki bara farsíma og tölvu heldur sjónvarpið, ísskápinn, þjófavarnarkerfið og svo mætti lengi telja.

Í Evrópu var byrjað að selja 5G tengingar fyrir heimili og fyrirtæki á síðasta ári. Það sem hefur hins vegar haft áhrif á söluna er að Apple hefur ekki enn hafið sölu á 5G farsímum en eins og við vitum þá er Apple með mjög stóra markaðshlutdeild á farsímamarkaðnum. Fyrsti Apple-síminn með 5G verður kynntur núna í lok mánaðarins eða byrjun nóvember. Þá er stóra spurningin sú hvað fyrirtækið nær að framleiða af slíkum símum. Birgðakeðjan hjá Apple var nefnilega rofin þegar heimsfaraldurinn skall á. Um 94% hverjum iPhone er kínversk framleiðsla en Kínverjarnir þurfa samt að fá örgjörva og aðra íhluti annars staðar frá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: 5G Heiðar Guðjónsson