Óhætt er að segja að Kauphöllin hafi átt eitt sitt besta ár í sögunni. Nýskráningar hafa ekki verið fleiri frá því fyrir hrun, gangvirði flestra félaga hækkaði verulega, og velta hátt í tvöfaldaðist milli ára.

Arion banki tryggði sér titilinn sem hástökkvari ársins með 103,5% hækkun við lok viðskipta í Kauphöllinni klukkan 4 í dag. Eimskip var þó ekki langt undan með 97,5%, og sex félög þeim til viðbótar hækkuðu um yfir 50% á árinu. Origo vermdi þriðja sætið með 80,5% hækkun og þar næst kom Sýn með 68% hækkun.

Fjögur ný félög bættust í Kauphöllina. Íslandsbanki og Síldarvinnslan fóru á aðalmarkað, og Fly Play og Solid Clouds á First North. Á móti fækkaði um eitt á aðalmarkaði þegar sameining Kviku og TM gekk í gegn.

Velta ársins nam 1.072 milljörðum og hækkaði um 78% milli ára og úrvalsvísitalan, OMXI10, hækkaði um 33%. Ekkert félag á aðalmarkaði lækkaði í viðskiptum ársins, og aðeins eitt á First North: Solid Clouds, sem var skráð á markað um mitt árið á útboðsgenginu 12,5 krónur á hlut, en stendur nú í tæpum 9,2 krónum.

Meðalhækkun ársins 42%
Raunar hækkaði ekkert skráð félag nema Solid Clouds um undir 10% á árinu, sem þætti vel ásættanleg ávöxtun í venjulegu árferði. Hluthafar Icelandair eða Marel, sem ráku lestina á aðalmarkaði með 11 og 12% hækkanir, sjá þó kannski árið í öðru ljósi þegar óvegin meðalárshækkun var ríflega 42%, að Solid Clouds meðtöldu. Marel hefur hinsvegar hækkað um 42,3% frá þarsíðustu áramótum, og Icelandair um 82% frá hlutafjárútboði sínu þarsíðasta haust.

Fasteignafélagið Kaldalón hækkaði mest á First North, um 66,7%, og Hampiðjan og Sláturfélag Suðurlands voru svo til jöfn í öðru og þriðja sæti, með 38,1 og 37,5% hækkun, í þeirri röð. Bréf Fly Play, sem skráð var í sumar, hækkuðu um 29%.

Síðasti dagurinn rólegur en veltan mikil
Mikil velta var á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, um 5,4 milljarðar, en nokkuð hóflegar verðbreytingar. Iceland Seafood hækkaði um 2,78% í 418 milljóna króna viðskiptum og Skeljungur og Origo um 1,43% og 1,41% í aðeins 5 og 65 milljóna króna veltu.

Hagar lækkuðu mest, um 2,17% í 235 milljóna viðskiptum, en því næst komu VÍS með 1,92% lækkun og Eik með 1,6% í 400 og 3 milljóna veltu. Alls hækkuðu 11 félög í viðskiptum dagsins, 2 stóðu í stað og 7 lækkuðu.