Í dag er ár liðið síðan EFTA-dómstóllin kvað upp dóm sinn í Icesave-málinu. Gunnlaugur Jónsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Eykon, rifjar tíðindin upp í dag í pistli á Pressunni og bendir á að hann hafi lagt til að dagurinn í dag gæti orðið baráttudagur gegn ríkisábyrgð.

„Ekki þarf að hafa mörg orð um það að ríkisábyrgð á bönkum, raunveruleg og ætluð, veldur ýmiss konar óæskilegri hegðun banka og þeirra sem lána til þeirra. Bankar njóta ekki aðhalds og taka því meiri áhættu en ella – af öllu tagi,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur segir það vera lyginni líkast hve lítið hafi lærst af fjármálakreppunni. Þótt Icesave-dómurinn hafi fallið sé ríkisábyrgð víða. „Enn er ríkisábyrgð fólgin í hlutverki seðlabanka víða um heim. Enn búast menn við því að ríkið bjargi bönkum – ef það getur (það bara var ekki hægt á Íslandi árið 2008, nema að hluta til). Enn eru innistæðutryggingar víða reknar á vegum hins opinbera,“ segir Gunnlaugur Jónsson.