Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda  stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 11. júní næstkomandi.

Afar stutt er nú á milli vaxtaákvörðunarfunda en síðasti vaxtaákvörðun nefndarinnar var 21. maí síðastliðinn. Þá ákvað nefndin að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum og voru meðal helstu raka fyrir þeirri ákvörðun að hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntinga hefði haft í för með sér að raunvextir bankans hefðu hækkað þá nokkuð það sem af er þessu ári. „Frá þeirri vaxtaákvörðun hefur ekkert gerst sem kallað getur á breytta sýn nefndarinnar á nauðsynlegt aðhaldstig peningamála um þessar mundir. Má því reikna með því að rök nefndarinnar fyrir óbreyttum stýrivöxtum verði svipuð nú og síðast,“ segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Þá segir Greining að raunstýrivextir bankans séu nú nálægt jafnvægi eftir talsverða hækkun á þessu ári, verðbólgan við verðbólgumarkmiðið, krónan stöðug og slakinn nánast horfinn úr efnahagslífinu. Verðbólguvæntingar hafi verið að lækka en séu til lengri tíma enn nokkuð yfir verðbólgumarkmiði bankans. Spáir Greining því að þetta verði ár jafnvægis og að peningastefnunefnd bankans muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum allt árið. „Spáum við því hins vegar, líkt og Seðlabankinn, að spenna myndist í hagkerfinu á næstu misserum og að samhliða aukist verðbólguþrýstingurinn, sem kallar á aukið aðhald í peningamálum í formi hærri raunstýrivaxta. Reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við því með hækkun nafnstýrivaxta bankans á næsta ári,“ segir í Greiningunni.