39,7% samdráttur var í sölu nýrra fólksbíla í nóvember samanborið við sama tíma í fyrra ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu. Samdrátturinn á fyrstu ellefu mánuðum ársins var 5,4%. Alls hafa verið nýskráðir 6984 bílar á þessu ári. Það er fækkun um 402 bíla miðað við sama tímabil í fyrra.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að frá ágúst síðastliðnum hafi sala á nýjum bílum dregist verulega saman og ljóst sé að árið muni valda miklum vonbrigðum hvað varða sölu nýrra bíla.  „Bílafloti landsmanna heldur áfram að eldast og erum við komin með einn elsta bílaflota í Evrópu sem ekki getur talist eftirsóknarvert með tilliti til mengunar og öryggis,“ segir Özur í tilkynningu.

Möguleg skýring á minni sölu í nóvember í ár voru fyrirhugaðar skuldalækkanir þeirra sem voru með verðtryggð lán og voru kynnt um helgina.