Vinna við markaðsgreiningu Póst- og fjarskipta-stofnunar (PFS) á fjarskiptamarkaði hefur dregist umtalsvert. Slíkar greiningar eru lögum samkvæmt eitt af meginverkefnum stofnunarinnar en óhætt er að segja að oft hafi liðið langur tími milli þess sem slíkar greiningar eru unnar.

Skylda til vinnslu markaðsgreininga á rætur sínar að rekja til Evróputilskipana. Sú fyrsta var leidd í lög árið 2003 en samkvæmt tilmælum frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem gefin voru út árið 2004, skyldi vinna greiningar á átján nánar skilgreindum mörkuðum. PFS lauk þeirri fyrstu atrennu í árslok 2008. Það ár var skilgreindum mörkuðum fækkað úr átján í sjö og hóf PFS að vinna greiningar á grunni hinna nýju markaða.

Af vef PFS má ráða að alls fimm sinnum hafi verið ráðist í að vinna greiningu á markaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum en greiningar á öðrum mörkuðum voru fátíðari.

Nýjustu tilmæli ESA eru frá árinu 2016. Samkvæmt þeim eru skilgreindir markaðir fjórir talsins en einn markaðurinn er skilgreindur í tvo undirþætti. Það er skemmst frá því að segja að frá því að nýjustu tilmælin tóku gildi hefur afskaplega lítið farið fyrir vinnu er lýtur að markaðsgreiningum.

Sex ára gömul greining

Sé það niðurstaða markaðsgreiningar að eitthvert fyrirtækja á markaðnum sé með „umtalsverðan markaðsstyrk“ hefur PFS heimild til að leggja ýmsar kvaðir á téð fyrirtæki. Sem dæmi um slíkar kvaðir má nefna aukið eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhaldi og tilteknar smásölukvaðir. Þannig getur fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk verið skylt að verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum annarra fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum.

Í gegnum tíðina hafa slíkar kvaðir verið lagðar á fyrirtæki. Sem dæmi má nefna að árið 2014 vann PFS greiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang í heildsölu. Sú vinna leiddi í ljós að Míla hefði langmestu markaðshlutdeildina, um 83% af markaðinum, og voru ýmsar kvaðir lagðar á fyrirtækið. Síðan þá hefur ekki verið unnin greining á umræddum markaði og þær kvaðir því enn í fullu gildi.

Í kynningarriti PFS um markaðsgreiningar, sem er að vísu orðið ríflega tíu ára gamalt, segir að niðurstöður markaðsgreininga séu ekki varanlegar og nauðsynlegt að endurskoða þær reglulega innan skynsamlegra tímamarka. Við slíka vinnu séu markaðir greindir með tilliti til þróunar, eins og unnt sé, í nánustu framtíð og að „[almennt sé] talið hæfilegt að endurskoða markaðsgreiningar á tveggja til þriggja ára fresti“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .