Bókhald sádi-arabíska ríkisolíufyrirtækisins Saudi Aramco var á dögunum gert opinbert, en yfirvöld í landinu stefna á að fyrirtækið verði skráð á hlutabréfamarkað árið 2021. Óhætt er að segja að bókhald olíufyrirtækisins líti vel út, en hagnaður félagsins á síðasta ári nam 111,1 milljarði dollara, sem samsvarar rúmlega 13.200 milljörðum króna. Með þessu er Aramco  talið arðbærasta fyrirtæki heims.

Til samanburðar má nefna að hagnaður Aramco er meiri en samanlagður hagnaður bandarísku stórfyrirtækjanna Apple og Exxon Mobil. Þá var hagnaður fyrirtækisins ellefu sinnum meiri heldur en hagnaður netrisans Amazon. Að sögn Aramco nam hagnaður félagsins fyrir skatta og önnur gjöld 212 milljörðum dollara, sem er svipuð upphæð og árleg útgjöld allra 28 aðildarríkja Evrópusambandsins til hernaðarmála.

Talið er að fyrrnefnd fyrirhuguð skráning félagsins á markað myndi fela í sér stærsta hlutafjárútboð sögunnar. Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu, hyggst nýta hlutafjárútboðið til þess að safna tugum milljarða dollara, sem nýttir verða til þess að fjármagna byggingu nýrra framúrstefnulegra borga, gera efnahag landsins sem er mjög háður olíuauðlindinni fjölbreyttari og til að byggja upp aðrar atvinnugreinar landsins; til að mynda tækniiðnaðinn, skemmtanaiðnaðinn og námuvinnslu.

Stórt skref í átt að hlutafjárútboði

Krónprinsinn viðraði upphaflega hugmynd sína um hlutafjárútboð í byrjun árs 2016 en áhyggjur manna yfir því að fjárhagsupplýsingar Aramco yrðu gerðar opinberar urðu til þess að aðgerðir frestuðust um nokkur ár. Töldu meðal annars margir bankamenn og sádi-arabískir embættismenn sem komu að vinnu útboðsins, að það yrði aldrei að veruleika.

„Þessar fjárhagsupplýsingar hafa ekki áður verið opnar almenningi. Þetta er mikilvægur áfangi og stórt skref í átt að hlutafjárútboði," sagði Theodore Holland, sjóðsstjóri hjá Fisch Asset Management AG, í samtali við Wall Street Journal, en fjármálafyrirtækið hyggst taka þátt í fyrirhuguðu skuldabréfaútboði félagsins. Hann telur að skuldabréf Aramco myndu vekja mikla eftirspurn meðal fjárfesta.

10 milljarða skuldabréfaútboð á döfinni

Ástæða þess að bókhald Aramco var gert opinbert á þessum tímapunkti er þó ekki vegna mögulegs hlutafjárútboðs, heldur kemur það til vegna 10 milljarða dollara skuldabréfaútboðs sem fyrirtækið hyggst ráðast í á næstunni. Skuldafjárútboðið er tilkomið vegna fyrirhugaðrar 69,1 milljarða dollara fjárfestingu Aramco í 70% hlut í Sádí-Arabíska ríkisfyrirtækinu Saudi Basic Industries Corp. (Sabic) sem framleiðir jarðolíu. Yrðu þessir 10 milljarðar greiddir strax upp í kaupverðið en restin af kaupverðinu verður svo innt af hendi í nokkrum afborgunum. Aramco hefur valið banka líkt og JPMorgan Chase & Co. og Morgan Stanley til þess að sjá um skuldabréfaútboðið og halda kynningar á útboðinu í að minnsta kosti átta borgum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Þá mun fjárfestingabankinn Lazard einnig vera sjálfstæður ráðgjafi Aramco í tengslum við skuldabréfaútboðið.

Lágur framleiðslukostnaður á hverja tunnu

Þessi velgengni Aramco á sér eflaust ýmsar útskýringar. Ein af þeim er sú að framleiðslukostnaður á hverja olíutunnu er hvergi lægri í heiminum, en það kostar olíufélagið einungis 10 dollara að framleiða hverja tunnu. Til samanburðar má nefna að næstlægsti framleiðslukostnaður á olíu, sem er í Írak og Íran, er rúmlega tvöfalt hærri en kostnaður Aramco. Þá kostar það frændur okkar Norðmenn rúmlega 40 dollara að framleiða hverja olíutunnu. Því er ljóst að Aramco hagnast mun meira af hverri tunnu en aðrir olíuframleiðendur, en olíuverð á hverja tunnu hefur að meðaltali verið 62,82 dollarar á þessu ári. Fyrirtækið er því ekki eins berskjaldað fyrir lækkun olíuverðs og flestir aðrir framleiðendur, en árið 2016 fór olíuverð meðal annars niður í tæplega 28 dollara á tunnuna. Á meðan flestir olíuframleiðendur lentu þá í því að selja hverja tunnu með tapi, græddi Aramco um 18 dollara á hverri tunnu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .