Ráðist hefur verið í töluverðar skipulagsbreytingar á Íslandi frá því að Salt Pay keypti Borgun af Íslandsbanka og fleiri fjárfestum á síðasta ári. Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, tók í ágúst við sem forstjóri Salt Pay á Íslandi, en Reynir sat áður í stjórn Borgunar.

Sæmundur Sæmundsson sem og flestir lykilstjórnendur Borgunar létu af störfum eftir kaupin. Félagið sagði síðast upp 55 manns í apríl hér á landi í tengslum við breytingar á greiðslukerfi félagsins en ríflega 130 stöðugildi voru hjá félaginu árið 2020.

Borgun tapaði 1,2 milljörðum á síðasta ári og 880 milljónum árið 2019. Reynir segir að starfsmenn félagsins hér á landi séu nú um 90 og hafi fjölgað undanfarið.

„Starfsemin gengur þokkalega á Íslandi. Það er ekkert launungarmál að það voru verulegar áskoranir á þessum markaði jafnvel fyrir Covid. Lausnin á þeim vanda felst ekki í því að halda áfram óbreyttri starfsemi, heldur að breyta viðskiptalíkani fyrirtækisins,“ segir Reynir.

Stjórnendur Salt Pay hafa sagst ætla að verða leiðandi fjártæknifélag í Evrópu með áherslu á að auðvelda litlum og meðalstórum félögum að nýta sér gögn um viðskiptavini sína betur. „Bæta þarf við vöruúrval, þannig að við verðum ekki bara færsluhirðir, heldur samstarfsaðili sem einfaldar utanumhald rekstrar og getur komið með leiðir til að auka sölu. Það er viðskiptalíkan Salt Pay Group og hefur síðasta árið verið notað til að ráða til félagsins fólk með reynslu og getu til að koma þeirri hugmynd í framkvæmd. Á Íslandi munum við sjá árangur af þessu á fyrri hluta næsta árs,“ segir Reynir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .