Von er á fullltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Aþenu í dag. Þeir munu meta árangur Grikklands við niðurskurð hins opinbera. BBC segir að þeir hafi lyklavöld að ákvörðun um frekari fjárveitingar til landsins, sem Grikkland vantar sárlega.

Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, sagði í ræðu sem hann hélt í Þýskalandi í gær að átak Grikklands sé „yfirnáttúrulegt“.

Heimsókn fulltrúa, ESB, seðlabankans og AGS er á sama tíma og fréttir berast af mismunandi sýn evruríkja á björgun Grikklands. Trú á að lausn sé í sjónmáli jókst í byrjun vikunnar, og sást einna helst á líflegum hlutabréfamörkuðum. Financial Times greindi frá í gærkvöldi að nokkur fjöldi sautján evruríkja vilja að einkaaðilar taki á sig stærri skell en nú er gert ráð fyrir. Samkvæmt áætlunum sem lagðar voru fram í júlí munu einkabankar gefa eftir um 20% skulda Grikklands.

Frétt FT hafði töluvert áhrif á markaði og lækkuðu til að mynda hlutabréfavísitölur á Wall Street eftir að hún birtist.