*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 24. apríl 2021 07:22

Árangur mikilvægari en umfang

Fjármálaráðherra segir hlutfall af landsframleiðslu ekki góðan mælikvarða á efnahagsaðgerðir. Árangurinn sé það sem máli skiptir.

Andrea Sigurðardóttir
Fjármálaráðherra segir aðgerðir fjármálkerfis, ríkisvalds og Seðlabanka hafa lagst á sömu sveifina.
Haraldur Guðjónsson

Í vikubyrjun birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) álit sendinefndar sinnar eftir fundi nefndarinnar með íslenskum stjórnvöldum og öðrum hagaðilum síðustu vikur. Fundirnir eru liður í árlegri úttekt AGS á stöðu og horfum í íslensku atvinnulífi en eðli máls samkvæmt voru áhrif faraldursins í forgrunni að þessu sinni.

Viðskiptablaðið ræddi álit AGS og efnahagshorfur fram undan við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, sem er að vonum ánægður með álit sendinefndarinnar.

„Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bendir á að hér á landi höfðum við komið okkur í sterka stöðu fyrir faraldurinn og þannig skapað rými til aðgerða þegar faraldurinn skall á. Skuldastaða hins opinbera hafði lækkað verulega, gjaldeyrisforði verið byggður upp, efnahagsreikningar bankanna voru sterkir og svigrúm til staðar í peningastefnu Seðlabankans. Það er mikilvægt að halda þessu til haga þannig að þessi krísa megi verða okkur til áminningar til lengri tíma um mikilvægi þess að nota tíma og fjármuni skynsamlega þegar vel árar," segir Bjarni.

Bjarni segir nokkuð hafa borið á gagnrýnisröddum sem þykja ríkisstjórnina ekki hafa gengið nógu langt með aðgerðum sínum, en að þær raddir fái ekki hljómgrunn hjá AGS.

„Alþjóðagjaldeirssjóðurinn telur aðgerðir okkar ríma vel við aðstæður í hagkerfinu og álitið endurspeglar það sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með frá upphafi, það er að gera frekar meira en minna og að styðja bæði við heimili og fyrirtæki. Það gerðum við í þeirri vissu að aðgerðirnar muni á endanum skila sér til baka í sterkari stöðu efnahagsmála almennt."

Lögðust á sömu sveifina

Umfang aðgerða sem hlutfall af landsframleiðslu hefur verið nokkuð til umræðu, ekki síst eftir að AGS birti lista yfir stuðning ríkisfjármála meðal Evrópuríkja við fólk og fyrirtæki þar sem stuðningur á Íslandi var vanmetinn, líkt og síðar kom í ljós. Leiðréttingin var mikilvæg í huga Bjarna en hann bendir þó á að hlutfallið sem slíkt sé ekki góður mælikvarði á aðgerðir ríkja.

„Við mat á aðgerðum er mikilvægara að skoða hvaða árangri þær skila frekar en hve mikið var lagt í þær. Það er mjög vafasamt að hugsa allar efnahagsaðgerðir sem hlutfall af landsframleiðslu, enda getur það ekki verið sjálfstætt markmið að auka halla ríkissjóðs án þess að hafa fullvissu fyrir því að það komi sannarlega að gagni. Ég kýs frekar að leggja áherslu á að skoða hvort aðgerðir hafi verið sniðnar að vandanum og hvort okkur hafi tekist að ná þeim markmiðum sem að var stefnt og svarið við því liggur fyrir," segir Bjarni og útskýrir nánar:

„Okkur tókst mjög vel að verja innlenda neyslu og verja stöðu heimilanna á síðasta ári. Afkoma ríkissjóðs var betri árið 2020 en í stefndi, einkaneyslan var hærri heldur en hagspár gerðu ráð fyrir, lítið var um gjaldþrot og upplýsingar innan úr fjármálakerfinu sýndu að það væri mjög sjaldgæft að heimili væru í sérstökum vanda vegna húsnæðislána eða annarra lánamála, þar sem bankarnir höfðu svigrúm til að bjóða úrræði fyrir þá sem á þurftu að halda. Það hafði verið veitt fyrirgreiðsla í bankakerfinu og svigrúm fyrir þá fyrirgreiðslu var myndað í aðdraganda þessarar krísu, þegar eiginfjáraukarnir voru háir og viðnámsþróttur bankakerfisins var styrktur. Síðan veitir Seðlabankinn svigrúm með því að lækka eiginfjáraukana og vextir eru lækkaðir þannig að aðgerðir fjármálakerfisins, ríkisvaldsins og Seðlabankans hafa lagst á sömu sveifina."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér