Orkuveita Reykjavíkur segir árangur hagræðingaraðgerða eftir fyrsta ársfjórðung þessa árs umfram áætlun. Í aðgerðaáætluninni, sem Orkuveitan nefnir Planið, felast margháttaðar aðgerðir með það heildarmarkmið að bæta sjóðsstreymi OR um 50 milljarða króna til ársloka 2016.

Árangur aðgerðanna eftir 1. ársfjórðung 2012 nam 2,1 milljarði króna og var 322 milljónum króna umfram áætlun. Auk þess reyndust ytri þættir hagstæðari en gert var ráð fyrir í forsendum og munar þar um 34 milljónir króna.

Samkvæmt tilkynningunna var niðurstaðan fyrir fjórðunginn því jákvæð um 356 milljónir króna og frá upphafi er niðurstaðan 1.563 milljónum betri en gert var ráð fyrir í Planinu.

Þá er samdráttur fjárfestinga í veitukerfum umfram áætlanir en sala eigna á fjórðunginum undir áætlun. Hlutur OR í HS veitum er í opinberu söluferli.