Fundi samninganefnda ríkis og BHM var slitið klukkan tíu mínútur yfir þrjú í dag. Fundurinn hófst klukkan þrjú, og því stóð hann einungis yfir í tíu mínútur. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

Aftur á móti hefur fundur samninganefnda hjúkrunarfræðinga og ríkis staðið yfir frá því síðan níu í morgun.

Haft er eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, að ekkert hafi áorkast á fundi með samninganefnd ríkisins. Engar nýjar hugmyndir hafi verið lagðar fram, en samninganefnd ríkisins hafi aftur á móti ítrekað þau tilboð sem hafi verið lögð fram áður en lög voru sett á verkföll. Hún segir að BHM hugnist þau ekki frekar en þegar þau voru lögð fram.

Að viku liðinni munu kjaradeilur fara fyrir gerðardóm, í samræmi við lög sem voru sett á deilurnar þann 13. júní síðastliðinn.