Rússneski vopnaframleiðandinn Izhmash, sem frægastur er fyrir að framleiða árásarriffilinn AK-47 (Avtomat Kalashnikova 1947), er gjaldþrota. Tap fyrirtækisins í fyrra nam 62 milljónum evra (andvirði um 9,7 milljörðum íslenskra króna) og skuldir þess nema um 136 milljónum evra. Framleiðsla hefur dregist saman um helming og hefur fyrirtækið verið tekið yfir af ríkinu.

Nokkrar ástæður eru fyrir þessum umsnúningi hjá fyrirtækinu. Í fyrsta lagi hefur rússneski herinn hætt að kaupa riffla af fyrirtækinu, en birgðastöðvar hersins eru að springa af ónotuðum rifflum. Í frétt Spiegel segir að herinn hafi nú tólf sinnum fleiri riffla en þörf er á og er gert ráð fyrir að um 12 milljón rifflum verði fargað fyrir árið 2015. Herinn telur að hinn harðgerði en ónákvæmi riffill, sem framleiddur var fyrir risastóra heri Varsjárbandalagsins, uppfylli ekki lengur kröfur nútímaherafla. Meiri þörf sé á nákvæmari vopnum.

Þá hefur Izhmash þurft að keppa við ódýrari eftirlíkingar frá Austur-Evrópu og Kína. Framboð á AK-rifflum er mun meira en eftirspurn og hefur rússneski framleiðandinn ekki getað keppt við þessar ódýru vörur.

Hönnuður AK-47 riffilsins, Mikhail Timofeyevich Kalashnikov, er enn á lífi, en heilsa hinnar 92 ára gömlu hetju Sovétríkjanna sálugu er ekki betri en svo að börn hans hafa ekki þorað að segja honum frá vandræðum fyrirtækisins. Óttast þau að áfallið yrði honum of þungbært.